Table of Contents
Litla prinsessan mín var skírð í nóvember og var þá aldeilis tilefni til að nota hugmyndirnar af stelpulegum veitingum og skreytingum sem höfðu safnast upp hjá mér.
Eftir 3 ár af strákaafmælum fékk mamman aldeilis að njóta sín í prinsessuþemanu.
Veitingaborðið
Persónulega finnst mér alltaf flott að hafa frekar jafnt hlutfall milli þess sem er matarkyn og því sem er sætt. Sjálf fæ ég mér alltaf að borða mat í veislum áður en ég fylli á eftirréttahólfið
Þessar pylsur sem eru innbakaðar í deigi eru ávallt vinsælar og skemmtilegt að setja sósurnar í svona flöskur með pumpu, það lítur svo vel út á veisluborðinu.
Einnig fékk ég þessi einnota sósubox í mega store, þá er engin hætta á að diskurinn verði allur útataður í tómatsósu og þar af leiðandi tómatsósubragð af kökunum á eftir.
Ég bakaði eina marsípan tertu með jarðarberja Jello Rjóma. Leyfði svo bara nafninu að njóta sín og fallegu skónum frá föðurömmunni.
Rósakökur eru ávallt vinsælar og hef ég gert margar slíkar fyrir fermingar, skírnir og brúðkaup enda einstaklega fallegar.
Þessi rósakaka var súkkulaðikaka með vanillukremi
Mini bollakökurnar eru alltaf svo góðar, stundum langar manni að smakka margar tegundir en full stærð af bollaköku er stundum full mikið magn.
Þessar voru vanillu með jarðarberjakremi og vanillu með vanillukremi.
Ég bjó til marengs pops sem hefur heldur betur verið að slá í gegn. Þeit líta út eins og risa sleikjó-ar og vekja svei mér lukku. Svo koma þeir einstaklega vel út á veisluboðinu
Poppbarinn var mjög vinsæll í veislunni enda fáir sem standast ljúfengt karamellupopp. Skellti flottu bréfpokunum í servíettustand sem ég átti.
Þegar góða veislu gjöra skal er auðvitað tilvalið að hafa flotta drykki á boðstólum.
Sítrónu og ávaxtagos slær alltaf í gegn og reyni ég alltaf að hafa annan dúnkinn minn með sykurlausum drykk.
Sítrónugos :
Hreint sódavatn
Niðurskorin sítróna.
Ávaxtagos :
Rauður kristall Plús með appelsínubragði
2 stk sun lolly með jarðarberjabragði
Niðurskornar sítrónur og appelsínur
Ég nota þessar flöskur þegar ég er með veislur. Þær eru appelsín flöskur síðan ég gifti mig og henta einstaklega vel með drykkjardúnkunum mínum.