Upphafið að gleðinni
Mitt ævintýri hófst í ágúst fyrir tveimur árum síðan þegar ég ákvað að gefa þessu ketó matarræði sem ég hafði heyrt um tækifæri til að sanna sig. Mér fannst ég vera komin í smá öngstræti varðandi aukakíló og leið hreinlega ekki vel, hvorki líkamlega né andlega. Ég var farin að fá liðverki, andþyngsli, bakflæði og ég var alltaf þreytt og orkulaus.
Mér fannst ég vera föst í einhverju fari sem ég vissi að ég þyrfti að ná mér uppúr. Hluti af þessu orkuleysi var einnig járn og blóðleysi en ég hafði verið að berjast við slíkt síðan ég missti mikið blóð í fæðingu eldra barnsins og endaði í bráðaaðgerð. Ég hafði lesið mig til um að ketó gæti einnig haft áhrif á blóðheilsu og sú var raunin í mínu tilfelli.
Mitt markmið til að byrja með var að prófa þessa leið í 3 vikur með algjörlega opnu hugarfari og taka svo stöðuna á líðan og heilsu að þeim loknum. Ég hafði hreinlega engu að tapa.
Ég byrjaði að taka út kolvetnin sem þýddi allan sykur, hveiti og því sem fylgir en það hentaði mér best að hætta öllu á einu bretti. Það hentar mér að vita hvað má borða og hvað má ekki, þá finnst mér ég hafa stjórn á aðstæðum.
Strax á fyrstu viku fóru nokkur kíló af bjúg og líkaminn var augljóslega að bregðast við þeim breytingum sem höfðu átt sér stað með breyttu matarræði.
Eftir 3 vikur var hreinlega ekki aftur snúið. Öll orkan sem var eiginlega ótrúleg, ég var miklu léttari á mér bæði líkamlega og andlega og ég fann hvað mér leið virkilega vel. Fötin byrjuðu að passa betur og mér leið mun betur í eigin skinni. Orkan gaf mér ótrúlegan kraft til að prófa mig áfram og engin spurning að ég ætlaði að halda áfram. Það er svo góð tilfinning að upplifa sig í bílstjórasætinu í eigin líkama.
Áður en ég byrjaði á ketó borðaði ég mikið af kolvetnum og sótti mikið í brauðmeti, pasta og sykur. Ég var alltaf að leitast í skyndiorku til að ná mér í eitthvað sem myndi duga fram að næstu máltíð. Það virðist vera að kolvetni öskri á meira af kolvetnum og ég gat borðað endalaust, það var enginn stoppari. Í dag get ég ekki borðað jafn mikið magn og áður, það er eins og stopparinn hafi færst mun neðar enda feitur matur oft saðsamari en kolvetnaríkur. Í dag hugsa ég daginn í heild og stefni á að hafa orkuna sem jafnasta yfir heilan dag frekar en orkuskot fram að næstu máltíð. Það er hugarfarsbreyting sem er lykilatriði.
Andlega hliðin er sá vinkill sem má aldrei vanmeta alveg sama hvað við tökum okkur fyrir hendur en að upplifa það að maður hafi fullkomna stjórn á sinni næringu og vellíðan sem því fylgir gefur manni aukinn kraft. Við tókum þessa umræðu einmitt í podcast þættinum okkar Hrannar vinkonu, Ketócastinu, þar sem við ræðum ketó málin á skemmtilegan þátt. Ketócastið var draumur okkar Hrannar Bjarnadóttur í langan tíma og við ákváðum að taka upp okkar eigið podcast sem hefur notið vinsælda. Þar erum við að ræða allskonar málefni hvað varðar ketó, ráð fyrir byrjendur og fáum að heyra alvöru reynslusögur frá fólki sem hefur verið á ketó. Okkar reynsla var sú að við upplifðum það báðar að manni liði eins og allt væri hægt með orkunni sem fylgir þessari ketónaframleiðslu líkamans og fleiri viðmælendur voru á sama máli.
Ég hef alltaf verið matmegin í lífinu og er það svo sannarlega enn. Ég fann mína hillu sem hentar mér fullkomlega og ég upplifi engan skort. Allur góði maturinn sem er í boði á þessu matarræði er allt í uppáhaldi hjá mér og það eru til ketóvænir staðgenglar fyrir flest allt.
Orkan og vellíðan er aðal markmið mitt með þessu matarræði en staðreyndin var sú að ég var orðin of þung með tilheyrandi heilsubresti. Ég hef misst tæp 20 kíló á þessu matarræði en þegar líður á hætti ég algjörlega að spá í kílóafjöldanum og vigtinni og einblíni á það að láta mér líða vel og leyfa mér að hlakka ávallt til næstu máltíðar.