Í dag er bleiki dagurinn og ég held ávallt mikið uppá þennan dag.
Það eru 10 ár síðan ég greindist með frumubreytingar í leghálsi fyrst.
Ég var um tvítugt og fékk símtal frá lækninum og ég hreinlega áttaði mig á því að ég vissi ekkert hvað þetta alls saman þýddi allt saman, ég man bara hvað ég varð ótrúlega hrædd og skelkuð. Ég var á leiðinni í kvöldskólann í FB þegar ég fékk þetta símtal en snéri við og fór beint heim til mömmu í miklu uppnámi. Stærðfræðin mátti nú alveg bíða í bili.
Það eru ótal konur sem greinast með frumubreytingar á ári hverju og það þarf ekki að þýða neitt alvarlegt en er ákveðið skref í því að halda allri eftirfylgni á réttu róli. Ég áttaði mig á því að á þeim tíma var ekki jafn mikið talað um slíka hluti og í dag og ég var hreinlega ekki með á nótunum hvað þetta þýddi í raun og veru.
Leghálsspeglun
Árin liðu og ég fór þrisvar sinnum í svokallaða leghálsspeglun á þessum árum þegar frumubreytingarnar höfðu aukist.
Leghálsspeglun felur í sér mun nánari sýnatöku þar sem litlir bútar eru teknir úr leghálsinum til að rannsaka betur og athuga hvernig staðan er.
Þetta er pínu óþægilegt en 2 panódíl og yndisleg kona að spjalla við mig um daginn og veginn til að dreifa huganum rétt á meðan þetta er gert.
Í einni af þessum speglunum þá höfðu frumubreytingar aukist tölvuvert og þá var ákveðið að ég færi í aðgerð sem kallast keiluskurður
Keiluskurður
Keiluskurður: Forstigsbreytingar leghálskrabbameins eru meðhöndlaðar með því að fjarlægja vef með slíkum breytingum. Gerður er svokallaður keiluskurður þar sem hluti leghálsins er fjarlægður. Oft er nægilegt að meðhöndla ífarandi leghálskrabbamein, sem er á byrjunarstigi og á afmörkuðu svæði, með keiluskurði eingöngu, og getur konan þá enn fætt börn eftir meðferðina.
Ég fór í keiluskurðinn þegar strákurinn minn var bara eins árs. Ég bað pabba um að skutla mér uppá spítala og var svo rúllað inná skurðstofu þar sem læknirinn minn tók á móti mér ásamt dásamlegu starfsfólki.
Hláturinn lengir lífið – komdu með svæfingarlyfin!
Ég gleymi seint augnablikinu þegar ég var spurð hvort að það væri í lagi mín vegna að læknanemar myndu fá að fylgjast með aðgerðinni. Ég svaraði að það væri alveg sjálfsagt – einhvern vegin þyrftu læknar að læra og allt í góðu.
Ég komin á borðið þá koma þessir 3 ungu og myndarlegu karlkyns læknanemar labbandi inn og ég við það að láta skera leghálsinn á mér með tilheyrandi stöðu. Ég sprakk algjörlega úr hlátri og spurði hvort við gætum ekki bara drifið okkur í þessari svæfingu. – Þeir eru pottþétt sérfræðingar í dag á góðri leið þessir myndarlegu læknar. Maður verður að hlæja af fyndnu mómentunum í lífinu.
Aðgerðin gekk mjög vel og sýnatakan eftirá leiddi í ljós að frumubreytingarnar höfðu farið. Ég mátti ekki lyfta barninu mínu í nokkrar vikur á eftir uppá blæðingahættu frá svæðinu sem skorið var og það fannst mér í raun erfiðast að vissi leyti þar sem hann var svo lítill en það gekk samt vel. Pabbi hans og eiginmaður minn var að sjálfsögðu kletturinn minn í þessu öllu saman eins og öllu öðru.
Markmið mitt með þessari færslu er að hvetja ALLAR konur til þess að mæta á leitarstöðina þegar þær fá boðun um skoðun.
Frumubreytingar geta gerst hratt en þess vegna er ég ávallt í eftirliti og mæti þarna og fer í fallega sloppinn og græja málið. Starfsfólkið þarna er algjörlega yndislegt og það er vel tekið á móti manni.
Þegar ég verð stressuð fyrir því að mæta þarna með klofið upp í loft þá hugsa ég “Æ Hanna Þóra hættu þessu bulli, þú tekur ábyrgð á þinni eigin heilsu og ekkert kjaftæði!”
Þau eru með konur þarna í skoðun allan daginn og þú ert bara kona með líkama eins og allar hinar.
Ég veit ekki hvernig þetta hefði farið ef ég hefði ekki mætt í skoðun! Það mun ég aldrei vita en ég ætla að mæta þegar mér er boðið því það skiptir máli!
Gerðu það fyrir þig sjálfa!
En njótum dagsins og borðum eitthvað bleikt og fallegt.
Ég skellti inn uppskrift af fallegum ketó bollakökum með bleiku kremi í tilefni dagsins
Njótið vel 🙂
https://www.hannathora.is/uppskriftir/bleikar-keto-bollakokur-fyrir-bleika-daginn/
Ef það er kominn tími á skoðun hjá þér þá getur þú pantað tíma á þessum link : https://www.krabb.is/leitarstod/panta-tima